Ný reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Ný reglugerð nr. 1251/2018 um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu tók gildi þann 1. janúar sl. Helstu breytingar frá fyrri reglugerð eru að greiðslumark almennings fer úr 25.100 kr. í 26.100 kr.  og greiðslumark hjá öldruðum, öryrkjum og börnum fer úr 16.700 í 17.400 kr. Lágmarksgreiðsla á mánuði er 4.340 kr. á mánuði hjá almenningi og 2.900 kr. hjá öldruðum, öryrkjum og börnum. 

Komugjöld á heilsugæslu og læknavakt eru gjaldfrjáls fyrir aldraða og öryrkja frá og með 1. janúar sl. Komugjöld vegna komu, endurkomu og á bráðamóttöku sjúkrahúsa hækka í 6.700 kr. hjá almenningi en eru 4.400 kr. hjá öldruðum og öryrkjum. Komugjöld á göngudeildir sjúkrahúsa hækka í 3.700 kr. fyrir almenning en eru 2.400 kr. hjá öldruðum og öryrkjum.

Einnig hefur verið gerð breyting frá fyrri reglugerð á fjölda skipta í þjálfun á ári. Í stað þess að heimild sé fyrir 20 skiptum í sjúkra-, tal- og iðjuþjálfun verður heimild fyrir 15 skiptum á hverju 12 mánaða tímabili.  Eftir það þarf að sækja um framhald til Sjúkratrygginga Íslands og ákveðin skilyrði verða að vera uppfyllt.