Sá fram á að verða öryrki

Þórólfur Jóhannesson var nýkominn úr sinni fjórðu brjósklosaðgerð þegar hann leitaði til Hólmfríðar Þors teinsdóttur sjúkraþjálfara hjá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Hann fór af stað með neikvætt hugarfar en það átti eftir að breytast fljótt.

 mynd2

Hvernig myndirðu lýsa líkamlegu ástandi þínu þegar þú bókaðir fyrst tíma hjá Hólmfríði árið 2013?

Ég var nýkominn úr minni fjórðu brjósklosaðgerð og orðinn mjög stirður og stífur aftan í lærinu. Hugafarslega var ég kominn á ákveðinn botn og sá ekki fram á bjarta framtíð í lífinu með bakið í þessu ástandi í leik og starfi. Ég sá í raun bara fram á að verða öryrki í framtíðinni enda búinn að heyra svo margt neikvætt við það að fara í fleiri en tvær bakaðgerðir.

 

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að fara til Hólmfríðar?

Einn ágætur heimilislæknir sagði við mig að nú væri kominn tími til að hlusta og hlýða. Ég ákvað því að hlusta og hlýða.

 

Ég var sendur í Virk og þar ákvað ég líka að hlusta og hlýða á leiðbeiningar og fara eftir þeim og sjá hvert það kæmi mér. Þar var mér bent á Hólmfríði og ég samþykkti að fara til hennar þó það væru nokkrar vikur í fyrsta tímann. Ég treysti því að þetta yrði rétt skref fyrir mig og ákvað sleppa tökunum algjörlega. Egóið mitt hefur eitthvað verið að þvælast fyrir mér í gegnum tíðina og eflaust hamlað mér.

 

Ég hafði verið í sjúkraþjálfun með hléum í hartnær tuttugu og fimm ár eða síðan ég var í kringum tvítugt. Ég hafði enga þolinmæði og trúði nánast ekki á sjúkraþjálfun, nema upp að vissu marki og mér fannst ég því lítið fá út úr tímunum öll þessi ár.

mynd3

Hver voru þá næstu skref og hvað breyttist?
Næstu skref voru að mæta í tíma og treysta því að eitthvað gott kæmi út úr því. Í raun hafði ég ekki mikla trú á því að eitthvað breyttist en raunin varð önnur. Ég hef mjög gaman af samskiptum og ég fann fljótt að ég hafði hitt á sjúkraþjálfara sem var opinn fyrir öðruvísi nálgun á vandamál mitt og úr varð að ég öðlaðist mikla trú og von um að líkamlegt ástand mitt myndi lagast og ég var núna orðinn áhugasamur og spurði spurninga.

Náðirðu framförum á skemmri tíma en þú áttir von á?
Já, það gerði ég bæði líkamlega og hugarfarslega. Í júlí 2014 var ég svo orðinn einkennalaus án allra verkja en þeir hafa komið aðeins aftur í lok ársins en það er eitthvað sem er viðbúið að gerist.
Hafa lífsgæðin aukist með bættri heilsu?

Lífsgæði mín hafa aukist til muna eftir tíma minn með Hólmfríði. Þá helst vegna aukinnar fræðslu og meðvitundar um eigin styrk og getu. Svo það sem mestu skiptir er að ég hef öðlast meiri trú á líkamann og getu hans.

 

Ég var til dæmis fullviss um að ég gæti ekki unnið við ákveðin störf í framtíðinni en Hólmfríður var á annarri skoðun.

mynd4

Út frá þessum hraða bata og miklu hvatningu Hólmfríðar tók ég að mér sjö mánaða verkefni í Noregi á síðasta ári. Eitthvað sem ég átti aldrei von á að geta gert.

 

Hvaða hreyfingu stundar þú í dag?

Ég stunda göngur og hjóla þegar ég get, en hjólamennskan fer aðeins verr í mig. Einnig passa ég vel upp á að teygja og gera grindarbotnsæfingar en fram að þessu hafa göngurnar reynst mér best.

 

Lentirðu í einhverjum hindrunum á leiðinni?

Nei, ekki þannig séð, eina hindrun mín er ég sjálfur.

 

Eitthvað að lokum?

Mínar eigin hugmyndir um sjálfan mig og líkama minn skipta miklu máli og ég sé það í dag að þar var ég ekki sterkur áður fyrr. Í raun get ég sagt að ný veröld hafi opnast með breyttu hugarfari. Eftir þessa mánuði hjá Hólmfríði hef ég líka áttað mig á mikilvægi þess að spyrja spurninga. Þar tel ég að mestu framfarir mínar hafi átt sér stað í bland við önnur samskipti og fræðslu sem fylgdi í tímunum.

 

Í dag er ég til dæmis viss um að ég hefði getað sleppt öllum bakaðgerðunum hefði ég fengið tíma hjá Hólmfríði árið 1996. Ég hefði breytt mörgu í lífi mínu í leik og starfi með þær upplýsingar sem ég hef í dag.

 mynd1