Í næstu viku, mánudaginn þann 5. mars, mun Elvar sjúkraþjálfari fara af stað með fyrsta Kinstretch grunnnámskeiðið á Íslandi en það mun fara fram í Sporthúsinu, Kópavogi. Kinstretch eru hópþjálfunartímar innan Functional Range Conditioning (FRC) kerfisins sem eru með það að markmiði að auka styrk, stjórn og liðleika liða í líkamanum og viðhalda heilsu liða.
Kinstretch er ekki hugsað til að koma í stað þeirrar íþróttar/hreyfingar sem þú stundar nú þegar heldur frekar til að gefa þér verkfærin sem þú þarft til að búa til líkama og liði sem uppfylla þær kröfur sem þín íþrótt eða hreyfing gerir. Með öðrum orðum nokkurskonar „fæðubót“ fyrir íþróttina, hreyfinguna eða áhugamálin sem þú stundar.
Hvort sem þú átt erfitt með að fara í botninn í hnébeygju og veltir fyrir þér afhverju, ert ofur liðugur og vilt öðlast stjórn á liðferlunum sem þú hefur eða einfaldlega vilt búa til heilbrigðari liði og læra á eigin líkama þá er þetta námskeið fyrir þig. Alls ekki er þó gerð krafa á að sá sem sækir námskeiðið stundi íþróttir af krafti heldur er námskeiðið vettvangur fyrir alla einstaklinga til að búa til betri líkama og heilbrigðari liði óháð því hvort þeir stundi íþróttir.
Á námskeiðinu munt þú, undir handleiðslu sjúkraþjálfara, læra hugmyndafræði sem gerir þér kleift að skilja líkama þinn og hvernig hann virkar. Þú munt læra að skilja orsakir meiðsla, hvernig hægt sé að fyrirbyggja þau og hvernig þú getur búið til heilbrigðan líkama sem er tilbúinn fyrir þá hreyfingu sem þú vilt stunda.
Sem sjúkraþjálfara hefur þessi hugmyndafræði reynst mér gífurlega vel til að ná árangri í meðferðum einstaklinga og sem Crossfit-iðkanda til að auka eigin liðleika og heilbrigði liða þrátt fyrir mikið æfingaálag.
Kennt verður 2x í viku, á mánudögum og miðvikudögum, klukkan 17:30-18:30 frá 5. – 28. mars og verða tímarnir blanda af æfingum og fræðslu. Tíminn mánudaginn 12. mars mun falla niður svo í heildina er grunnnámskeiðið 7 tímar.
Þeir sem taka námskeiðið fá aðgang að lokaðri facebook group þar sem þjálfarar deila efni og skapa vettvang fyrir umræður og hugmyndir sem snúa að kerfinu. Í framhaldinu er stefnan sett á að vera með Kinstretch tíma fyrir þá sem hafa lokið grunnnámskeiði í samræmi við eftirspurn. Það komast einöngu 12 að á námskeiðið og skráningarform hér fyrir neðan.
Kinstretch Grunnámskeið 5.-28. mars
Kennari: Elvar Leonardsson, sjúkraþjálfari
Staðsetning: Salur 3. Sporthúsinu, Kópavogi
Tímabil: 5. – 28. mars
Mánudaga 17:30 – 18:30
Miðvikudaga 17:30 – 18:30
Verð: 15.000kr*
* Greiðsla staðfestir skráningu, krafa verður gerð í heimabanka.