Nýtt greiðsluþátttökukerfi 1. maí 2017

Þann 2. júní 2016 var samþykkt á Alþingi breyting á lögum um sjúkratryggingar og á hún að taka gildi 1. febrúar n.k. Samkvæmt lögunum verður innleitt nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu þar sem heilbrigðisráðherra mun ákvarða hámarksgreiðslur sjúkratryggðra fyrir tiltekna heilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðisráðherra hefur nú ákveðið að fresta innleiðingu kerfisins til 1. maí n.k. Í því felst að núverandi fyrirkomulag greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu helst áfram óbreytt.

Með nýja kerfinu verður sett hámark á greiðslur sjúkratryggðra í hverjum mánuði fyrir tiltekna heilbrigðisþjónustu.  Þar er m.a. átt við þau gjöld sem sjúkratryggðir greiða fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt er á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum og fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt er hjá sjálfstætt starfandi læknum, sjúkraþjálfurum, iðjuþjálfum og talmeinafræðingum.

Við gildistöku nýja kerfisins verður tekið tillit til greiðslna fyrir framangreinda heilbrigðisþjónustu sem veitt er á tímabilinu 1. desember 2016 til og með 30. apríl 2017.

Velferðarráðuneytið hyggst setja reglugerðir um innleiðingu kerfisins í þessum mánuði og verður nýja greiðsluþátttökukerfið þá kynnt nánar.

Hér er frétt Velferðarráðuneytisins um málið:

https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nytt-greidsluthatttokukerfi-vegna-heilbrigdisthjonustu-tekur-gildi-1-mai (Opnast í nýjum vafraglugga)