Nýtt greiðsluþátttökukerfi 1. maí nk.

Við nýtt greiðsluþátttökukerfi þann 1. maí nk. breytast reglur um greiðsluþátttöku sjúklinga í sjúkraþjálfun.

Samkvæmt drögum að reglugerð er hægt að benda á þessa megin punkta sem hafa áhrif á greiðsluþátttöku í þjálfun.
Greiðslur sjúkratryggðs vegna þjálfunar og læknisþjónustu telja saman upp í  afsláttarstofn.

  • Tekið er tillit til þess hvað sjúkratryggður hefur greitt fyrir þjálfun og læknisþjónustu síðustu 5 mánuði fyrir gildistöku kerfis
  • Börn með beiðni greiða ekkert gjald fyrir sjúkraþjálfun.
  • Börn undir tveggja ára aldri og börn m. umönnunarbætur greiða ekkert gjald vegna meðferða án beiðni ( 6 á ári).
  • Almennir greiða 90% af heildartaxta (m.v. almenna meðferð). Hámarksgreiðsla í einum mánuði getur orðið 24.600 kr. Lágmarksgreiðsla í mánuði verður 4.100 kr. Það sem einstaklingur greiðir safnast saman upp í afslátt að frádregnum 4.100 kr. á mánuði (lágmarksgreiðsla mánaðar).
  • Aðrir ( aldraðir, öryrkjar) greiða 60% af heildartaxta (m.v. almenna meðferð). Hámarksgreiðsla í einum mánuði getur orðið 16.400 kr. Lágmarksgreiðsla er 2.733 kr.

Dæmi um hvernig kerfið virkar fyrir einstakling sem þarf á þjónustu sérfræðilæknis og þjálfara að halda:

Jón er með stöðuna almennur. Hann fer í axlaraðgerð í byrjun maí. Verð sjúkratrygginga fyrir axlaraðgerðina  er kr. 140.þús. en Jón greiðir hámarksgreiðslu  fyrir aðgerðina 24.600 kr. Tveimur vikum eftir aðgerð (í maí) fer Jón í sjúkraþjálfun, hann notar 3 þjálfunartíma í maí. Þar sem hann hefur þegar greitt hámarksgjald í maí mánuði, greiðir hann ekkert gjald fyrir sjúkraþjálfunina í maí.

Í júní heldur hann áfram í þjálfun, hann kemur 1x í viku í júní, hann greiðir 4.100 fyrir fyrsta tímann, en ekkert gjald fyrir aðra tíma í júní.

Hann kemur einnig í 4 þjálfunartíma í júlí. Hann greiðir 4.100 kr. fyrir fyrsta tímann í þjálfun en síðan ekkert gjald fyrir næstu 3 tíma, því þeir eru í sama mánuði.

Jón notar síðan ekki frekari þjálfun eða aðra heilbrigðisþjónustu fyrr en í október. Hann kemur í 4 tíma í þjálfun í október. Þar sem hann hefur ekki nýtt neina þjónustu í ágúst eða september, þá þarf hann að greiða 4.100 kr. x 3 = 12.300 kr. áður en hann fær afslátt. Hann greiðir því 6.036 kr. fyrir fyrsta tímann í þjálfun, 6.036 fyrir annan tímann, en eingöngu 228 kr. fyrir þriðja tímann (6.036+6.036+228 = 12.300)  og síðan ekkert gjald fyrir fjórða tímann.

Þegar einu sinn hefur verið greitt upp í hámarksgreiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu (24.600 kr.) verða meðalgreiðslur á mánuði ekki hærri en 4.100. Ef þjónusta er ekki notuð í einhverja mánuði lækkar það sem safnað hefur verið í afslátt um 4.100 kr. / 2.733 kr. á mánuði og einstaklingur greiðir upp í hámarksgreiðslu aftur.